STUNDUM SKYNSAMLEGA SKOTVEIÐI

„Það er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi“

Þessi orð eru höfð eftir Stefáni Jónssyni, alþingismanni, rithöfundi, útvarpsmanni og veiðimanni (1923 – 1990) og eiga jafn vel við í dag og þegar þau voru skrifuð.

  • Stofnar villtra dýra eru ekki óþrjótandi auðlind. Það þurfa veiðimenn að hafa í huga og miða veiðar sínar við það. Mikilvægt er að þeir fari af lögum og reglum og hafi siðareglur félagsins til hliðsjónar.

Allir veiðimenn þurfa að hafa gild skotvopnaleyfi og veiðikort þegar gengið er til veiða. 

Vert er að minna á að réttinum til að veiða fylgja ábyrgð og skyldur. Þeir sem nýta náttúrugæði ber skylda til að ganga um auðlindina af virðingu og auðmýkt. Siðferðisviðmið verða ekki sett í lög. Þeir sem temja sér siðareglur félagsins eru öðrum fyrirmynd og hvatning til ábyrgrar framgöngu.

Það eru forréttindi að geta stundað áhugamál eins og skotveiðar í fallegri náttúru, notið heilbrigðrar áreynslu og útiveru í góðum félagsskap. Því þarf að standa vörð um þau lífsgæði sem felast í hófsömum skotveiðum og meðhöndlun og neyslu villibráðar.